Gæðaviðurkenningar fyrir eTwinning verkefni í Selásskóla
Fulltrúar skóla- og menntayfirvalda komu saman á Nauthóli í Reykjavík fyrir stuttu þegar Rannís og Landskrifstofa Erasmus+ veittu Evrópsku nýsköpunarverðlaunin í kennslu og eTwinning gæðaviðurkenningar.
Að þessu sinni fengu fulltrúar úr tveimur skólum í Reykjavík svokallaðar gæðaviðurkenningar eTwinning. En gæðaviðurkenningar eru veittar fyrir vel unnin verkefni sem sýna fram á fagmennsku, frumkvæði og árangursríka notkun á eTwinning til alþjóðlegs samstarfs og skapandi náms. Þau sem fengu viðurkenningar voru þau Hjalti Sigurbjörnsson og Guðbjörg Bjarnadóttir kennarar í Ingunnarskóla fyrir hið frábæra verkefni Bátaleikarnir 25 en Rósa Harðardóttir úr Selásskóla fékk einnig viðurkenningu fyrir þátttöku í sama verkefni. Verkefnið er samstarfsverkefni Ingunnar- Selás- og Vesturbæjarskóla ásamt mörgum öðrum skólum í Evrópu og er keyrt á hverju vori. Svo fékk Sandra Grettisdóttir kennari í Selásskóla viðurkenningu fyrir verkefnið The european chain reaction sem er frábært verkefni sem keyrt er á hverju ári í Selásskóla.