Líf og fjör í Selásskóla í september

Nemendur hlusta á Ævar kynna bækurnar sínar

 

Skólastarfið í Selásskóla er komið á fullt skrið og hafa nemendur tekið þátt í fjölbreyttum og skemmtilegum viðburðum nú í september.

 

Ólympíuhlaup ÍSÍ fór fram mánudaginn 15. september þar sem nemendur hlupu annað hvort 2,5 km eða 5 km stífluhringinn vinsæla. Veðrið lék við hlaupara og stóðu nemendur sig af mikilli prýði.

Dagur íslenskrar náttúru var haldinn hátíðlegur þriðjudaginn 16. september. Nemendur á miðstigi fóru í verkefnavinnu við Rauðavatn og yngri nemendur tóku þátt í skemmtilegum verkefnum á skólalóðinni. Deginum lauk með grillveislu á skólalóðinni þar sem starfsfólk og nemendur gæddu sér á pylsum eftir frískandi útiveruna.

Alþjóðlega degi punktsins (International Dot Day) var einnig fagnað 15. september. Nemendur í 1.–3. bekk hlustuðu á söguna The Dot eftir Peter H. Reynolds og unnu skapandi verkefni í tengslum við hana.

Rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson heimsótti skólann 12. september og kynnti bækur sínar, þar á meðal nýjustu bókina Skólastjórinn, sem hlaut barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur. Bókin kemur út í byrjun október og margir nemendur bíða spennt eftir að fá hana í hendur.

Að lokum má nefna Svakalegu lestrarkeppnina sem hófst 15. september og stendur til 15. október. Til hvatningar var ákveðið að hafa smá keppni líka á  milli árganga innan skólans, og eftir fyrstu vikuna hefur 3. bekkur lesið mest – heilar 6088 mínútur!