Um Selásskóla

Skólastarf í Selásskóla hófst haustið 1986. Skólinn er jaðarskóli efst í Árbænum. Börnin eru í Selásskóla til 12 ára aldurs en þá fara þau í Árbæjarskóla sem er safnskóli hverfisins. Skólinn hefur nýtt sér nálægð við helstu náttúruperlur borgarinnar með því að tengja hana við sem flestar námsgreinar. 

 

Saga skólans

Skólinn var byggður í sex áföngum og lauk þeim síðasta haustið 2002. Á skólaárinu 2002 -2003 var haldin samkeppni um nöfn á álmum skólans.  Frá og með skólaárinu 2003 – 2004  verða álmur skólans kallaðar Norðurgarður, Suðurgarður, Vesturgarður, Austurgarður, Miðgarður og Ásgarður. Þetta sama ár varð skólinn einsetinn. Frá og með hausti 2003 hafa allir nemendur skólans kost á að fá heita máltíð í hádeginu gegn vægu gjaldi. 

Teikning af húsi og barni hoppa parís fyrir utan.

Handhafi Grænfánans

Árið 1998 setti skólinn sér umhverfisstefnu, sem stöðugt er í þróun og bar sú vinna árangur vorið 2002 þegar skólinn fékk afhentan Grænfánann sem er viðurkenning frá Foundation for Environmental Education. Fánann fékk skólinn til tveggja ára. Skólinn endurnýjaði umsókn sína og var hún samþykkt og afhending Grænfánans til næstu tveggja ára fór fram þann 1. júní 2004. Á tuttugu ára afmæli skólans vorið 2006 fékk skólinn Grænfánann afhentan í þriðja sinn. 

 

Fjölbreyttir kennsluhættir

Í Selásskóla er leitast við að koma til móts við mismunandi þarftir hvers nemanda með því að bjóða upp á fjölbreytta kennsluhætti og námsefni. Lögð er áhersla á samvinnu bæði kennara og nemenda með teymiskennslu/vinnu. Námsmat er einstaklingsmiðað og á að vera hvetjandi fyrir nemendur. 

 

Teiknuð mynd af börnum að lesa og skrifa við borð í skólastofu.